Hakkaraskólinn er kominn í loftið

Byrjaðu hakkaraferilinn á skoli.ggc.tf

Netöryggiskeppni Íslands, Gagnaglíman, er árlegur viðburður sem haldinn er af frumkvæði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Markmið keppninnar er að efla áhuga íslenskra ungmenna á netöryggi og auka þekkingu og færni þeirra sem sýna því áhuga. Þar að auki þjónar keppnin því hlutverki að vera forkeppni Íslands fyrir Netöryggiskeppni Evrópu, European Cyber Security Challenge (ECSC). Markmið ECSC er að vekja áhuga á netöryggi um alla Evrópu.

Það þarf ekki að liggja lengi yfir fréttamiðlum samtímans til að átta sig á mikilvægi tölvuöryggis í nútímasamfélagi. Reglulega birtast fréttir af fyrirtækjum og einstaklingum verða af háum fjárhæðum vegna netárása og jafnvel tölvuinnbrot framkvæmd af ríkjum með það að markmiði að njósna um önnur ríki.

Þrátt fyrir mikilvægi netöryggis, þá skortir ennþá hæfileikaríkt fólk til að takast á við þær áskoranir sem því fylgja. Af þessari ástæðu setti Netöryggisstofnun Evrópu, ENISA, á laggirnar Netöryggiskeppni Evrópu. Markmið keppninnar er að hvetja ungt fólk til að kynna sér netöryggi og jafnframt hvetja ungt fólk til að íhuga að leggja netöryggi fyrir sig að atvinnu.

Um keppnina

Markmið keppninnar er að velja 10 manna lið til að taka þátt í ECSC 2024 fyrir Íslands hönd. Samkvæmt reglum ECSC verða keppendur að vera 25 ára eða yngri (fædd 1999 eða seinna). Netöryggiskeppnin fer fram í tveimur hlutum. Æfingarvettvangur sem verður opin öllum og verður aðgengilegur allan ársins hring fer í loftið 18 mars. Þeir þáttakendur sem ná 1000 stigum á æfingarvettvanginum fyrir 11. maí, öðlast þáttökurétt í landskeppninni, sem haldin verður í maí. Frammistaða keppenda í landskeppninni verður svo lögð til grundvallar þess að velja 10 manna hóp til að taka þátt í ECSC 2024 sem haldin verður í október í Tórínó, Ítalíu.

Bæði æfingarvettvangurinn og landskeppnin verða í hefðbundnu jeopardy style CTF (capture the flag) formi.

En ég hef enga reynslu af netöryggi og CTF, er þessi keppni fyrir mig?

Ef svo er, þá ertu í sömu sporum og flestir aðrir og það er allt í lagi. Það er eins með netöryggi og flest annað, það þarf bara áhuga og þolinmæði til að öðlast færnina. Þannig ef þú ert forvitin(n), þá er gott að byrja hér.

Framkvæmd keppninnar

18. mar - 11. maí

Hakkaraskólinn

Hakkaraskólinn settur í loftið og er opinn öllum!

Þeir þátttakendur sem ná 1.000 stigum og eru 25 ára eða yngri verður boðið að taka þátt í landskeppninni.

25. maí

Landskeppni

Eins dags keppni haldin í Háskólanum í Reykjavík.

Þeir keppendur sem standa sig best í landskeppninni verða valdir í keppnishóp Íslands fyrir ECSC.

1. jún - 1. okt

Æfingar keppnishóps

Reglulegar æfingar verða haldnar fyrir keppnishópinn.

8. okt - 11. okt

Netöryggiskeppni Evrópu (ECSC)

Lið frá rúmlega 20 Evrópulöndum etja kappi í Netöryggiskeppni Evrópu, sem haldin verður í Tórínó, Ítalíu, að þessu sinni.

Þjálfarar velja 10 einstaklinga úr keppnishópnum til að taka þátt fyrir Íslands hönd.